Á staðnum þar sem fossarnir syngja og furðufuglar fæðast eru bæjarbúar einkar vinalegir. Seyðisfjarðarbær liggur innst í hinum fallega Seyðisfirði og þaðan eru skemmtilegar gönguleiðir til nærliggjandi fjarða. Á Seyðisfirði geturðu átt á hættu að elska, skemmta þér látlaust, finna þig, verða fyrir hughrifum, dansa eða liggja látlaust og sleikja sólina.

Komdu í heimsókn á Seyðisfjörð, þar sem listin og menningin blómstrar og boðið er upp á dags ferðir með eða án leiðsagnar. Njóttu matargerðar úr héraði og upplifðu það sem okkar einstaki fjörður hefur upp á að bjóða.

Kunnugur staðháttum?

Seyðisfjörður hlykkjast langur, lygn og djúpur, 17 km frá ystu nesjum inn í fjarðarbotn þar sem kaupstaðurinn hjúfrar sig í háu skjóli Bjólfs og Strandartinds. Í dalverpinu inn af bænum fellur Fjarðará í ótal fallegum fossum af heiðarbrún og niður í Lónið innst í firðinum. Upp með ánni liggur þjóðvegurinn til héraðs, 26 km um Fjarðarheiði sem áður fyrr var verulegur farartálmi en er nú farinn á tæpum hálftíma á góðum vegi og veitir ferðalöngum fegursta útsýni til allra átta. Stafirnir, en svo nefnist vegurinn af Fjarðarheiðarbrún niður með Fjarðará, er einn tilkomumesti akvegur á landinu.

Fjarlægð frá Reykjavík: 679 km

Perla í lokaðri skel

Seyðisfjörður er af mörgum talinn fegursti bær landsins, ekki bara sökum einstakrar legu sinnar heldur líka vegna þess að hvergi á Íslandi er að finna jafn heillega byggð gamalla timburhúsa. Matthías Johannessen skáld orðaði þetta þannig að Seyðisfjörður væri Perla í lokaðri skel.

Upphaf bæjarins má eins og upphaf annara verslunarstaða rekja til erlendra kaupmanna, einkum danskra, sem hófu þar verslun um miðja 19. öld. En það sem skipti sköpum fyrir vöxt staðarins og viðgang var síldarævintýri Norðmanna á Íslandi frá 1870-1900. Þeir byggðu upp fjölda síldarstöðva í bænum sem breyttist á fáeinum árum úr litlu bændasamfélagi í athafnabæ sem fékk svo kaupstaðarréttindi árið 1895.

Um þessar mundir eru íbúar Seyðisfjarðar rétt tæplega 700.
Grundvöllur mannlífsins er sjávarútvegur og ferðaþjónustan setur æ meiri svip á bæjarlífið, enda umgjörð gamalla húsa og mikilfenglegrar náttúru hin ákjósanlegasta.

Farþega- og bílferjan Norræna, sem hefur haldið uppi siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu síðan 1975, leggst að bryggju á Seyðisfirði vikulega allan ársins hring.

Saga kaupstaðar

Á öndverðri 19. öld þróaðist ný tækni í byggingariðnaði í Noregi. Í sögunarmyllunum var farið að framleiða tilbúin hús til útflutnings um allan heim. Seyðfirskir athafnamenn með mikil tengsl við Noreg gripu tækifærið og reistu glæsileg og afar vönduð hús, bæði einbýlishús, verslanir og opinberar byggingar.

Mörg þessara húsa standa enn og setja svipmót aldamóta á bæinn. Saga húsa og byggðar er gerð aðgengileg fyrir gesti í litlum bæklingi er nefnist Gengið um gamla bæinn. Þar er á skýran hátt gert grein fyrir þróun bygginga og byggðar. Bæklinginn er hægt að nálgast í Upplýsingamiðstöðinni.

Til baka

Ævintýrin bíða þín.
Við hlökkum til að fá þig í heimsókn!