Tónleikaröðin Bláa kirkjan

29. June, 2022 – 3. August, 2022

Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan var stofnsett árið 1998 af Muff Worden tónlistarkennara og Sigurði Jónssyni verkfræðingi. Tónleikaröðin hefur verið starfrækt óslitið síðan.
Tónleikarnir fara fram í Seyðisfjarðarkirkju á miðvikudagskvöldum í júlí og fram í ágúst. Lögð hefur verið áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta tónleika þar sem klassísk tónlist, djass og blús, þjóðlagatónlist og léttari músík fá að njóta sín. Flytjendur eru alla jafna tónlistarfólk í fremstu röð.
Seyðisfjarðarkirkja þykir gott tónleikahús og láta flytjendur vel af því. Í kirkjunni er nýlegur Steinway flygill og 14 – 15 radda Frobeníus orgel. Kirkjan getur tekið allt að 300 manns í sæti. Tónleikagestir eru bæði heimamenn og Austfirðingar sem og erlendir ferðamenn.

Tónleikarnir fara fram í Seyðisfjarðarkirkju. Lögð hefur verið áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta tónleika þar sem klassísk tónlist, djass og blús, þjóðlagatónlist og léttari músík fá að njóta sín.

Tónleikarnir hefjast kl 20.30 og er aðgangseyrir er 3000.kr (2000 fyrir námsmenn, eldri borgara og öryrkja). Við bendum á spennandi tilboð sem finna má í Austurlands appinu – 20% afsláttur fyrir notendur appsins

 

 

Dagskrá 2022

_
29. júní – Brek
Hljómsveitin Brek var stofnuð haustið 2018. Sveitin leikur aðallega frumsamda, alþýðuskotna, tónlist með áhrifum úr ýmsum áttum, en meðlimir sveitarinnar leggja mikla áherslu á að skapa áhugaverða en notalega stemningu í hljóðfæraleik sínum. Hljómsveitina skipa Harpa Þorvaldsdóttir söngkona og píanóleikari, Jóhann Ingi Benediktsson gítarleikari og söngvari, Guðmundur Atli Pétursson mandólínleikari og Sigmar Þór Matthíasson bassaleikari. Síðastliðin tvö ár hafa verið viðburðarík hjá hljómsveitinni þrátt fyrir heimsfaraldur en Brek fékk m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2022 fyrir sína fyrstu breiðskífu er kom út í fyrra og heitir í höfuðið á hljómsveitinni.
_
6. júlí – Nordic Viola
Skoski víóluleikarinn Katherine Wren stofnaði Nordic Viola eða „Víóla í norðri“  árið 2016 ásamt Arnhildi Valgarðsdóttur, organista og píanóleikara. Þær hafa komið fram víða á síðustu árum en listsköpun þeirra snýst um að finna og flytja tónlist frá Íslandi, Grænlandi og eyjunum norðan við Skotland og styrkja þannig tengingar og upplifanir okkar sem búum hér við Norður-Atlantshafið.
_
13. júlí – Jonni og Kristín
Jonni og Kristín eru að austan og hafa starfað saman í tónlist um árabil. Þau hafa tekið þátt í alls konar tónlistaruppákomum í gegnum tíðina og hafa gefið út tvö lög sem finna má t.d. á streymisveitunni Spotify. Þau leggja áherslu á afslappaðan og órafmagnaðan flutning á lögum úr ýmsum áttum, eftir aðra en líka frumsamin, þekktum og minna þekktum.
_
20. júlí – Duo BARAZZ
Duo BARAZZ skipa saxófónleikarinn Dorthe Højland frá Danmörku og Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti Grafarvogskirkju. Lára og Dorthe hófu samstarf og samspil í Danmörku og hafa haldið fjölmarga tónleika saman, meðal annars hér á Íslandi í Hallgrímskirkju og víðar. Lára hefur sérhæft sig í flutningi BARokktónlistar meðan Dorthe er fyrst og fremst jAZZari – og þannig varð til nafnið Duo BARAZZ til. Þegar þessir tveir heimar mætast gerist ýmislegt óvænt og spennandi.
_
27. júlí – Katey Brooks 
Katey Brooks er frá Bristol í Englandi. Hún fer ótroðnar slóðir í sinni tónlistarsköpun og hún hefur ljáð heimsþekktum listamönnum eins og Brian May (Queen), Bill Wyman (Rolling Stones) og Nick Mason (Pink Floyd) kraftmikla rödd sína. Katey blandar saman þjóðlagatónlist, sálartónlist, blús og Ameríkana og útkoman er einstök.
_
3. ágúst – Sapiace
Tríó Sapiace er skipað fyrsta flokks tónlistarfólki sem býr og starfar í Vín, Austurríki. Þetta eru Álvaro Collao León á saxófón, Matthias Gredler leikur á selló og Eugenia Radoslava á píanó. Á tónleikunum munu þau flytja nokkur vel valin verk eftir m.a. Max Bruch og Albenu Petrovic.
_

Nánari upplýsingar um efnisskrá tónleikanna má finna á facebook síðu Bláu Kirkjunnar,  facebook.com/blaakirkjan/

Deila
dagatal

Staðsetning / Upplýsingar

Finna á korti

Dagatal