Tvísöngur
Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne.
Byggingarefni Tvísöngs er járnbundin steinsteypa. Það samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2.
Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni.
Tvísöngur er öllum opinn. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur.
Til að fara að Tvísöng þarf að ganga malarveg sem liggur mót fiskvinnslunni Brimberg í 15-20 mín.
Deila Aftur í menning & listir