Það er ólýsanleg mildi að ekki varð manntjón í þessum náttúruhamförum. Þrátt fyrir umfangsmiklar rýmingar voru hátt í 30 manns á skriðusvæðinu og tilviljun á tilviljun ofan varð mörgum til bjargar.
Altjón varð á 13 húsum: 4 íbúðarhúsum friðuðum fyrir aldurssakir, Silfurhöllinni sem hýsti nokkra smærri vinnustaði, stórri skemmu sem. hýsti sandblásturverkstæði og nokkrum sögufrægum byggingum, m.a. í eigu Tækniminjasafns Austurlands.
Tjón varð á fjölda annarra húsa og innbúi auk þess sem verulegt tjón varð á innviðum, lögnum, lóðum og vegakerfi. Þá varð rekstrartjón hjá mörgum fyrirtækjum, stórum sem smáum, þegar starfsemi þeirra stöðvaðist.
Á Seyðisfirði er ein heildstæðasta byggð eldri timburhúsa á Íslandi. Stóra skriðan féll á Búðareyri sem kölluð hefur verið vagga Seyðisfjarðar. Þar hefur í gegnum tíðina verið blanda atvinnustarfsemi og íbúðarbyggðar, auk safnasvæðis Tækniminjasafnsins. Þegar skriðan hreif með sér sögufræg hús og eyðilagði dágóðan hluta safnkosts safnsins, olli hún einu mesta tjóni á menningar- og byggingararfi landsins sem orðið hefur í seinni tíð.
Seyðfirskt samfélag varð fyrir gríðarlegu áfalli við þessar náttúruhamfarir sem urðu í miðjum heimsfaraldri. Heimili og vinnustaðir glötuðust, sumir íbúa sluppu naumlega undan skriðunni, fjölmargir glíma við sálrænar eftirstöðvar, atvinnulífið varð fyrir miklu höggi og mörgum spurningum um framtíðaruppbyggingu bæjarins er ósvarað. Þrátt fyrir þetta hefur mikill samhugur einkennt samfélagið og fólk vill leggja sitt af mörkum til endurreisnar byggðarinnar.
Markvisst hreinsunarstarf hófst þegar í stað á skriðusvæðunum og hefur það gengið vonum framar. Áður en hægt var að fjarlægja rústirnar þurfti að fara vandlega í gegnum þær til að bjarga því sem heillegt var af eigum fólks auk safnkosts Tækniminjasafnsins. Um vorið hófst sáning í skriðusárin til að græða þau upp.
Umfang og eyðileggingarmáttur stóru skriðunnar kom að óvörum, þó að vitað hafi verið að mjög stórar skriður hafi fallið í firðinum fyrir sögulegan tíma og hættumat gefi til kynna umfangsmikla skriðuhættu í suðurbænum. Neðri hluti hlíða Strandartinds skríður stöðugt fram og hlýnandi loftslag veldur því að aukin hætta stafar af sífrera hátt í fjallinu. Mikil vinna er fram undan við gerð varnarmannvirkja til viðbótar við þær bráðavarnir sem ráðist var í eftir skriðuföllin. Þeirra viðamest er drenun Botnanna, þar sem stóra skriðan átti upptök, til þess að draga úr hreyfingu og auka stöðugleika lausra jarðlaga.
Vöktun hefur verið stóraukin með margvíslegri mælingartækni, s.s. á vatnsþrýstingi í borholum og á hreyfingu jarðlaga með alstöð og sjálfvirkum GPS mælum.